Landeyjar, eru neðan Þverár milli Hólsár og Ála og skiptir Affall þeim í Austur– og Vestur–Landeyjar sem voru áður hreppar en tilheyra nú sveitarfélaginu Rangárþingi eystra. Landeyjar eru marflatar að kalla, enda myndaðar af framburði Markarfljóts og er þar hvergi fast berg að finna. Þar eru miklar mýrar sem hafa verið ræstar fram og ræktaðar að hluta, en undir þeim er möl úr gömlum farvegum Markarfljóts. Bæirnir standa flestir á hólum sem myndaðir eru af foksandi. Sandbelti er með endilangri ströndinni og einnig um ofnaverðar Austur–Landeyjar. Mikið átak hefur verið gert í sandgræðslu og eru sandarnir óðum að gróa upp.