Landmannalaugar, heitar laugar sem spretta undan jaðri Laugahrauns og sameinast í einn læk sem víðast er mátulega djúpur og volgur til að baða sig í honum. Umhverfi lækjarins er grasi vaxið. Staðurinn er kringdur marglitum líparítfjöllum með slíkri fjölbreytni lita og forma að ótrúlegt má kallast.
Landmannalaugar hafa lengi verið eftirsóttur ferðamannastaður. Ferðafélag Íslands á þar skála en gamall leitarmannakofi er í hraunröndinni fyrir ofan. Hringsjá er á Bláhnúk.