Laugarvatnsvellir, valllendisflatir austan undir Reyðarbarmi. Upp af völlunum að vestan eru tveir hellar, var þar löngum hýst sauðfé og búið var þar um skeið á fyrstu tugum 20. aldar.
1910–11 bjuggu þarna ung hjón, Guðrún Kolbeinsdóttir og Indriði Guðmundsson og höfðu auk búskaparins veitingasölu í tjaldi á Völlunum. 1918 flyst þangað Símon Símonarson og býr þar eitt ár.
Samtímis honum býr þar einnig Jón Þorvarðarson ásamt Vigdísi konu sinni. Þau bjuggu í hellinum til ársins 1922 og á því tímabili fæddist þeim dóttir.
Jón tók sjálfur á móti dóttur sinni, en varð svo að fara langa leið í ófærð að sækja ljósmóðurina. Heilsaðist bæði móður og barni vel.
Upplýsingaskilti er við hellinn.
Suður af Laugarvatnsvöllum eru Beitivellir, forn áningarstaður sem oft er getið í sögum.