Leirhöfn, landnámsjörð Reistar. Þar bjó á Sturlungaöld Leirhafnar–Hjalti sem fór með her manns á skipum til liðs við Kolbein unga vestur á Húnaflóa. Hann féll í þeirri orrustu. Helgi Kristjánsson (1894–1982) bóndi þar kom upp stóru bókasafni sem hann gaf sýslunni og er það geymt á bókasafni sveitarfélagsins á Snartarstöðum. Sömuleiðis framleiddi hann kuldahúfur sem urðu landsfrægar. Nokkuð þéttbýli var á Leirhafnartorfu. Í Nýhöfn, bjó Kristinn (1885–1971) bróðir Helga, mikill hagleiks– og hugvitsmaður og stundaði járnsmíði og vélaviðgerðir. Fann m.a. upp línurennuna og fékk viðurkenningu Alþingis fyrir það. Leirhöfn þótti góð höfn eftir að inn var komið, en innsigling þröng. Daginn sem seinni heimsstyrjöld lauk, 2. maí 1945, nauðlenti þýsk flugvél við mynni Leirhafnar. Bretar tóku áhöfn höndum og voru það síðustu þýsku stríðsfangarnir á Íslandi.