Leirhöfn

Leirhöfn, landnámsjörð Reistar. Þar bjó á Sturlungaöld Leirhafnar–Hjalti sem fór með her manns á skipum til liðs við Kolbein unga vestur á Húna­flóa. Hann féll í þeirri orrustu. Helgi Kristjánsson (1894–1982) bóndi þar kom upp stóru bókasafni sem hann gaf sýslunni og er það geymt á bóka­safni sveitarfélagsins á Snartarstöðum. Sömuleiðis fram­leiddi hann kulda­húfur sem urðu landsfrægar. Nokkuð þéttbýli var á Leirhafnartorfu. Í Ný­höfn, bjó Kristinn (1885–1971) bróðir Helga, mikill hagleiks– og hug­vits­mað­ur og stundaði járnsmíði og vélaviðgerðir. Fann m.a. upp línu­rennuna og fékk viðurkenningu Alþingis fyrir það. Leirhöfn þótti góð höfn eftir að inn var komið, en innsigling þröng. Daginn sem seinni heims­styrjöld lauk, 2. maí 1945, nauðlenti þýsk flugvél við mynni Leir­hafnar. Bretar tóku áhöfn hönd­um og voru það síðustu þýsku stríðsfangarnir á Ís­landi.