Beruhóll, fram undan bænum í Berufirði en þar er að sögn heygð Bera sú er bjó í Berufirði ásamt Sóta bónda sínum. Eitt sinn villtust þau á leið sinni frá Skriðdal og margt manna með þeim. Veður var illt og dóu allir förunautar þeirra á svonefndum Mannabeinahjalla. Sóti komst á móts við Berufjarðarbæ og þrammaði fram af fjallinu og var dysjaður í Sótabotni. Bera lét hest og hund ráða og vissi ekki fyrri til en hesturinn þaut inn í hesthúsið í Berufirði og með slíkum látum að hún datt af baki og hálsbrotnaði. Mörg örnefni í hreppnum eru kennd við hana.