Melar, fornt stórbýli og fyrrum kirkjustaður og prestssetur. Við Mela er eitt stórfelldasta sjávarrof hér á landi. Heita þar Melabakkar og eru þeir víða 20–30 m háir og lóðréttir. Þar sem áður var kirkja og kirkjugarður flæðir nú sjór yfir. Meðal presta þar var Bjarni Arngrímsson (1768–1821). Hann bar uppfræðslu landsmanna mjög fyrir brjósti og samdi m.a. barnalærdómskver. Séra Bjarni var einn af brautryðjendum í garðyrkju og samdi tvær bækur um það efni. Fyrir aðra þeirra sæmdi danska stjórnin hann gullverðlaunum og lét dreifa bókinni ókeypis meðal bænda. Þar var einnig prestur Helgi Sigurðsson (1815–88), aðalfrumkvöðull að stofnun Þjóðminjasafnsins. Hann lærði ljósmyndun fyrstur Íslendinga á námsárum sínum í Kaupmannahöfn 1842–45.