Melrakkaslétta, skaginn milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar. Mikið og fjölbreytt fuglalíf með ströndinni og inn til heiða. Ströndin vogskorin og grynningar víða. Víða hafa orðið skipsskaðar og enn má sjá katla og brotajárn í sjávarkömbum sem segja sína sögu. Sléttan dregur nafn sitt af melrakkanum sem er e.t.v. betur þekktur sem tófa, refur eða lágfóta, en heimkynni hans má þar víða finna. Áður var búsældarlegt á Melrakkasléttu þegar hin fornu hlunnindi voru talin til tekna s.s. selur, varp og veiði. Búið var með ströndinni en leyfar finnast af nokkrum smábýlum til heiða. Fjárbúskapur hefur dregist saman og býlum fækkað en brottfluttir hugsa hlýlega heim og fjölgar mannfólki á Sléttu er vora tekur. Mikið fuglalíf og ósnortin náttúra. Nokkrar merktar gönguleiðir eru á Sléttu og Sléttugangan er farin árlega, annan laugardag í ágúst.