Melstaður

Melstaður, prestssetur og kirkjustaður. Fyrstur á Melstað bjó Ögmundur sonur Kormáks, víkverskur maður. Hann kom til Íslands og fann öndvegissúlur sínar í Miðfirði, hitti Miðfjarðar–Skeggja, sem gaf honum land á melnum. Ögmundur eignaðir Döllu, dóttur Önundar sjóna á Ánabrekku á Mýrum, og börn þeirra voru Kormákur skáld og Þorgils. Um þetta má lesa í Kormákssögu.

Eftir kristnitökuna auðgaðist kirkjan að Melstað og þótti hún ein af fjórum bestu brauðum norðanlands. Þar sat Björn Jónsson biskups Arasonar á 16. öld og síðar Arngrímur Jónsson lærði í 50 ár 1598–1648 og ritaði meðal annars Crymogeu og fleiri fræðirit um landið og söguna.

Kirkjan á nokkra gamla góða gripi.