Möðruvallafjall, fyrir ofan Möðruvelli, allhátt og bratt en gróið að mestu. Norðan við það skerst alllangur afdalur suðaustur í fjöllin. Heitir sá Mjaðmárdalur. Á sú er úr honum fellur sameinast Þverá er kemur ofan af Þverárdal. Á milli þeirra er Tungnafjall. Þar í Tungunum eða á Mjaðmárdal elduðu þeir grátt silfur Víga–Glúmur og Víga–Skúta, og í Mjaðmárgili var það sem Glúmur slapp svo nauðuglega að hann lét eftir kápu sína til að blekkja fjandmann sinn.