Mývatn, meðal stærstu vatna á Íslandi 36,5 km2 í 277 m hæð y.s., mjög vogskorið, skipt af töngum í tvo flóa, Ytri– og Syðriflóa, fremur grunnt (meðaldýpi 2,5 m, dýpst 4,5 m), mikið af kísilþörungaskeljum (kísilgúr) í botni. Fjöldi eyja og hólma, margir gervigígar, gróður mikill í vatninu, í eyjum og á vatnsbökkum. Liggur á jaðri eldvirka beltisins sem liggur um norðurland. Vatnið sprettur upp í ótal lindum undan hraunjaðri, og eldgígar og eldfjöll móta landslagið. Frægar eldstöðvar eru í Mývatnssveit, t.d. Hverfjall (Hverfell), Krafla og Þrengslaborgir. Eldvirkni er mikil og fjölbreytt og þykir gefa óvenju góða hugmynd um hvernig jarðskorpan gliðnar vegna landreks. Ýmsar hraunmyndanir við Mývatn eru víðkunnar, einkum Dimmuborgir og Klasar við Kálfaströnd, og gervigígar setja mikinn svip á vatnsbakkana. Mývatn sjálft, ásamt Laxá, sem fellur úr því, er frjósamasta ferskvatn hér á landi. Þar er fuglalíf með afbrigðum mikið, einkum vatna– og votlendisfuglar ýmiss konar og silungsveiði. Laxveiði er í ánni neðantil. Lífauðgin byggist á næringarríku jarðvatni, mikilli sólgeislun og hagstæðu vatnsdýpi fyrir botngróður og vatnafugla. Hlunnindabúskapur, einkum silungsveiði og eggjatekja, var mikilvægur liður í lífsbjörg Mývetninga.