Mývatn

Mývatn, með­al stærstu vatna á Íslandi 36,5 km2 í 277 m hæð y.s., mjög vogs­korið, skipt af töngum í tvo flóa, Ytri– og Syðri­flóa, fremur grunnt (með­aldýpi 2,5 m, dýpst 4,5 m), mik­ið af kís­il­þör­unga­skeljum (kís­il­gúr) í botni. Fjöldi eyja og hólma, margir gervi­gígar, gróður mik­ill í vatn­inu, í eyj­u­m og á vatns­bökkum. Liggur á jaðri eld­virka belt­is­ins sem liggur um norð­ur­land. Vatnið sprettur upp í ótal lindum undan hraun­jaðri, og eld­gígar og eld­fjöll móta lands­lagið. Fræg­ar eld­stöðvar eru í Mývatnssveit, t.d. Hver­fjall (Hverfell), Krafla og Þrengsla­borgir. Eldvirkni er mikil og fjöl­breytt og þykir gefa óvenju góða hug­mynd um hvernig jarð­skorpan gliðnar vegna land­reks. Ýmsar hraun­­mynd­anir við Mývatn eru víð­kunnar, einkum Dimmuborgir og Klasar við Kálfaströnd, og gervi­gígar setja mik­inn svip á vatns­bakk­ana. Mý­vatn sjálft, ásamt Laxá, sem fellur úr því, er frjó­sam­asta fersk­vatn hér á landi. Þar er fugla­líf með afbrigðum mik­ið, einkum vatna– og vot­lend­is­fuglar ýmiss konar og sil­ungs­veiði. Lax­­veiði er í ánni neð­antil. Lífauðgin bygg­ist á nær­ing­ar­ríku jarð­vatni, mik­illi sól­geislun og hag­stæðu vatnsdýpi fyrir botn­gróður og vatna­fugla. Hlunn­inda­búskapur, einkum sil­ungs­veiði og eggja­tekja, var mik­il­vægur liður í lífs­björg Mývetninga.