Núpsstaður

Núpsstaður, austasti bær sýslunnar. Landslag hrikalegt með hömrum, tind­um og dröngum. Bænhúsið á Núpsstað er torfhús, talið reist í nú­ver­andi mynd um miðja 19. öld, en á sér mun eldri rætur. Húsið var notað m.a. sem skemma um tíma, en gekk þó jafnan undir nafninu bænhús. Þjóð­minja­vörður friðlýsti húsið árið 1930, fyrst húsa á landinu og er það hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Á árunum 1958–60 fór fram við­gerð á því á vegum Þjóðminjasafnsins og var það síðan tekið aftur til kirkju­legra nota með messu 3. september 1961. Bænhúsið er hluti af merkri bæjar­heild á staðnum. Mörg torfhúsanna eru að stofni til frá 19. öld, en íbúðar­hús­ið var byggt um 1929. Húsaskipan og landslagið í kring sýna glögg merki um búsetuhætti fyrri tíma. Þjóðminjasafnið hafði einnig umsjón með viðgerðum á bæjarhúsunum á árunum 2006–2008. Þjóð­minjasafnið fer með varðveislu bæjarhúsanna á staðnum. Núps­staður hefur verið í eigu sömu ættarinnar frá 1839, en þar bjó m.a. Hannes Jóns­son (1880–1968), lengi póstur milli Síðu og Hornafjarðar, landsfrægur vatna­­maður.