Oddi, kirkjustaður og prestssetur, eitt mesta höfðingja– og menntasetur landsins til forna.
Þaðan var hin fræga ætt Oddaverja en kunnastir þeirra ættmenna voru Sæmundur fróði Sigfússon (1056–1133) og sonarsonur hans Jón Loftsson (1124–1197).
Snorri Sturluson ólst upp í Odda og telja sumir að bókarheitið Edda sé dregið af heitinu Oddi.
Sjö Oddaprestar á liðnum öldum urðu biskupar. Þar var síra Matthías Jochumsson prestur um skeið.
Oddi var talinn eitt besta brauð landsins.
Núverandi kirkja í Odda er stálvarin timburkirkja, reist 1924 eftir uppdrætti Guðjón Samúelssonar húsameistara ríkisins. Í kirkjunni eru nokkrir góðir gripir, þar á meðal kaleikur, talinn frá um 1300.
Á 50 ára afmæli Prentsmiðjunar Odda 1993 færði fyrirtækið Odda fagran trjálund að gjöf sem starfsmenn þess plöntuðu suðaustur af kirkjunni á svonefndum Dyravelli.
Árið 1998 var afhjúpuð í Odda afsteypa af styttu Ásmundar Sveinssonar, Sæmundur á selnum. Gömul frásögn er til um Gammabrekku, 40 m háan hóll sem stendur norðan við bæinn Odda. Sagt var að í hólnum væri grafið skip hlaðið gulli og ef reynt yrði að grafa eftir því muni bærinn í Odda brenna.
Hringsjá er á Gammabrekku.