Patreksfjörður, kauptún við samnefndan fjörð, hluti Vesturbyggðar. Stendur á tveimur eyrum, Vatneyri og Geirseyri. Höfn grafin inn í lítið vatn á Vatneyri 1946, heitir Patrekshöfn. Íbúar voru 636 1. jan. 2012. Aðalatvinnuvegir; útgerð og fiskvinnsla. Kirkja, prestsetur, sýslumannssetur, heilsugæslustöð, sjúkrahús, grunnskóli, iðnskóli, útisundlaug og félagsheimili. Flugvöllur er á Sandodda handan fjarðarins og að Hnjóti í Örlygshöfn er merkilegt byggðasafn. Elsta steinhús á Vestfjörðum byggt 1874 á Geirseyri en hefur nú verið jafnað við jörðu. Oft eru athafnamennirnir Ólafur Jóhannesson (1867–1936) og Pétur A. Ólafsson (1870–1949) kallaðir feður staðarins. En með framkvæmdum þeirra á fyrstu tugum aldarinnar tók kauptúnið mjög að vaxa. Jón úr Vör Jónsson (1917–2000), einn helsti frumkvöðull nýstefnu módernismans í íslenskri ljóðlist fæddist á Patreksfirði og ólst þar upp.