Rauðisandur

Rauðisandur, byggð­ar­lag er dreg­ur nafn af rauð­gul­um skelj­asandi með allri strönd­inni. Til Rauða­sands­hrepps telst all­ur skag­inn sunn­an Pat­reks­fjarð­ar og innsti hluti strand­ar­inn­ar að norð­an. Er það vest­asta byggð á Ís­landi og um leið í Evr­ópu. Árið 1579 voru um 70 sjóræningjar á skipi í Patreksfirði. Sagt er að fálkakaupmanninum Jóni Falck hafi verið uppsigað við lögmanninn Eggert Hannesson á Bæ á Rauðasandi og að hann hafi vísað ræningjunum á býli Eggerts. Þann 29. júní komu sjóræningjarnir að Bæ, brutust þar inn, helsærðu einn mann og létu greipar sópa í bænum og kirkjunni. Eggert sagði sjálfur í bréfi til Friðriks II Danakonungs að þeir hafi sett hann nakinn upp á hest og haldið honum föngnum í fjórtán daga í kaupstaðnum á Vatneyri. Þar hafi þeir í tvær vikur þvingað fé af honum og fleira fólki, pínt mann einn með eldi, rænt víða og lifað ,,skammarlegum lifnaði með konum og stúlkum móti þeirra eigin vilja“. Því næst reru ræningjarnir með Eggert til Bíldudals. Þar var virki þýskra kaupmanna, gert úr torfi. Ræningjarnir fóru upp í virkið og skutu af byssunum. Sagt er að þá hafi kaupmennirnir flúið í ofboði og ræningjarnir stolið öllu steini léttara á Bíldudal, en ekki gert fólki skaða. Síðan fluttu þeir Eggert yfir í kaupstaðinn í Skutulsfirði, rændu kirkjuna þar, nauðguðu konum og drápu fjóra menn. Eggert létu þeir loks lausan eftir að þýskur skipstjóri gekk í ábyrgð fyrir hann.