Sæluhúsvið Jökulsá á Fjöllum

Sæluhús, Jökulsá á Fjöllum var mikill farartálmi fyrr á öldum. Áin var hvergi talin reið, en áður voru lögferjur á stöðum þar sem umferð var mest. Haustið 1880 réði amtmaðurinn yfir Norður– og Austurumdæminu Jakob Hálfdanarson bónda á Grímsstöðum til að gera við og bæta póstveginn yfir Mývatnsöræfi og að byggja sæluhús við Jökulsá. Veitti landssjóður fé til smíði hússins og var því valinn staður á vesturbakka árinnar. Kláfur yfir ána var skammt frá því. Ráðist var í að reisa sæluhúsið árið 1881 úr steini, og var til verksins fenginn Sigurbjörn Sigurðsson frá Hólum í Laxárdal. Alls komu fjórir menn að byggingunni. Húsið er u.þ.b. 3 km norður af þjóðveginum. Það er 4,9 x 6,1 m að grunnfleti, hálfniðurgrafinn kjallari, jarðhæð og lágt ris. Gólf eru úr timbri og þak bárujárnsklætt. Kjallarinn var notaður fyrir hesthús, en á hæðinni eru tvö herbergi og skilrúm á milli þeirra úr þunnum fjölum. Í innra herberginu er ofn og rúmbálkur. Löngum var talað um að reimt væri í húsinu. Húsið hefur verið hluti af húsasafni Þjóðminja­safns Íslands frá 1988, en var áður í umsjá Vegagerðar ríkisins.