Sandgerði, kaupstaður. Mikil útgerðar– og fiskverkunarstöð, miklar hafnarbætur gerðar. Þar má enn sjá minjar um útgerð frá því fyrir aldamót.
Við innakstur í bæinn stendur listaverkið Álög eftir Steinunni Þórarinsdóttur. Tjaldstæði með aðstöðu fyrir húsbíla og hjólhýsi og sumarhús.
Í Sandgerði er Listatorg með gallerí og listmunahús. Fræðasetur sem leggur áherslu á lífríki í sjó, fjörum og tjörnum. Þar er einnig sýningin Heimskautin heilla, frábær sýning um lækninn, landkönnuðinn, vísindamanninn og heimskautafarann Jean–Baptiste Charcot og skip hans Pourquoi–pas? sem fórst við Íslandsströnd. Þar er varðveitt eitt elsta björgunarskýli landsins, Þorsteinsskýli, og björgunarbáturinn Þorsteinn, yfir aldar gamall.
Hús Lionsmanna, Efra Sandgerði, er elsta hús bæjarins. Sveinbjörn Þórðarson útvegsbóndi byggði húsið árið 1883 úr timbri af risastóru amerísku seglskipi, Jamestown, sem rak mannlaust að landi og strandaði við Hvalsnes 1881. Timburfarmurinn var notaður til að byggja fjölda annarra húsa á Suðurnesjum, Suðurlandi og víðar. Í golfskálanum er veitingasala á sumrin.