Sátudalur

Baula, 934 m hátt líparítfjall. Baula er keilulaga, brött og skriðurunnin, torfærulaus en seinfarin. Styst er að ganga á fjallið að suðaustan eða suðvestan frá Bjarnardal. Stórgrýti getur verið hálflaust, þannig að gæta ber nokkurrar varúðar. Efst uppi er grjótbyrgi og í því gestabók. Þar er einnig hlaðin varða. Útsýn af tindinum er geysivíð. Vestan og norðan Baulu er Litla–Baula og Skildingafell en þau raða sér kringum lítinn og fallegan dal, Sátudal. Úr Sátudal rennur Dýrastaðaá í miklum og djúpum gljúfrum og fjölda fossa og sameinast Norðurá hjá Hóli og Hafþórsstöðum.