Seyðisfjörður

Seyðisfjörður, kaupstaður við samnefndan fjörð, alllangan en mjóan, kringdan hrikalegum fjöllum.

Verslun hófst þar 1843. Mikill uppgangsbær kringum aldamótin 1900, enda góð hafnarskilyrði. Norðmaðurinn Otto Wathne (1834–98) var þar forgöngumaður, hefur honum verið reist þar minnismerki, einnig Inga T. Lárussyni (1892–1946) tónskáldi. Árið 1906 var lagður sæsímastrengur til Seyðisfjarðar og hófust þar með fjarskipti við útlönd.

Á safnasvæði Tækniminjasafnsins er elsta vélsmiðja og ritsímastöð á landinu. Myndlistasýningar og viðburðir eru allan ársins hring í Skaftfelli menningarmiðstöð, miðstöð sjónlista á Austurlandi.

Til Seyðisfjarðar gengur bílferjan Norræna milli Færeyja, Danmerkur og Íslands allt árið um kring og fylgir því fjölþætt ferðaþjónusta.