Siglufjörður

Siglufjörður, er annar tveggja byggðakjarna Fjallabyggðar. Siglufjörður er nyrsti kaupstaðurinn á Íslandi.Fáir bæir á Íslandi eiga sér jafn viðburðarríka sögu og Siglufjörður. Gengi fiskveiða og sjávarútvegsfyrirtækja hefur risið og hnigið á víxl og staðurinn ýmist gleymdur eða víðfrægur. Þjónusta við ferðamenn hefur aukist á undanförnum árum og er kappkostað að taka vel á móti gestum bæjarins.

Síldarminjasafnið er mjög áhugavert safn, sem hlaut Íslensku safnaverðlaunin fyrst safna, árið 2000 og Michelettiverðlaunin árið 2004. Þar er einnig Ljóðasetur og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar.Á Siglufirði er ár hvert haldin Þjóðlagahátíð í júlíbyrjun. Það er vikulöng, alþjóðleg tónlistahátíð þar sem íslenski tónlistararfurinn er í brennidepli en einnig flutt tónlist annarra þjóða; fjöldi tónleika, fyrirlestrar og námskeið í íslensku handverki.

Listakonan Aðalheiður Eysteinsdóttir sem þekkt er fyrir trélistaverk sín er frá Siglufirði. Lístaverk hennar má meðal annars finna á öllum Icelandair hótelum.