Skagaströnd

Skagaströnd, hefur alla tíð byggt afkomu sína á sjávarútvegi. Þar á Arnar, einn aflasælasti frystitogari landsins, sína heimahöfn. Fjöldi fiskibáta rær frá Skagaströnd og þar er öflugur fiskmarkaður.Breytingar hafa orðið á atvinnulífinu bæjarins síðustu árin. BioPol ehf. er sjávarlíftæknisetur sem stundar rannsóknir á lífríki Húnaflóa og leitar að auknum nýtingarmöguleikum auðlinda sjávar.

Árlega dvelja á annað hundrað listamenn í listamiðstöðinni Nes. Þeir búa mánuð í senn í bænum og sinna list sinni í vinnustofum þar sem áður var gamalt frystihús.

Vinnumálastofnun starfrækir greiðslustofu atvinnuleysistrygginga á Skagaströnd. Mjög fall­egt tjaldsvæði er á Skagaströnd og gott pláss fyrir húsbíla, hjólhýsi og tjaldvagna. Sundlaugin er lítil en notaleg og þar hefur skapast sú hefð að fólki í heita pottinum er boðið upp á kaffi. Spákonufellshöfði er vinsælt útivistarsvæði. Þar hafa verið merktar gönguleiðir og sett upp fræðsluskilti um fugla og gróður. Á björtum sumarkvöldum má þar sjá miðnætursólina setjast við hafasbrún í norðri. Spákonufell er svipmikið og virðulegt fjall fyrir ofan bæinn. Þar eru fjölmargar merktar gönguleiðir. Bæklingar um gönguleiðir á Spákonufell og Spákonufellshöfða má fá víða í bænum. Um fjóra kílómetra frá Skagaströnd er níu holu golfvöllur Golfklúbbs Skagastrandar og þykir hann bæði fallegur og krefjandi. Aðal atvinnuvegir eru sjávarútvegur, iðnaður, verslun og þjónustua. Grunnskóli, kirkja, veitingastaður, kaffihús, félagsheimili, heilsugæslustöð, íþróttahús og sundlaug.