Skálar, í eyði síðan 1955. Þar reis upp fiskiþorp snemma á 20. öldinni og voru fastir íbúar þar 117 árið 1924, auk fjölda útróðrarmanna íslenskra og færeyskra á sumrin. Hélst sú byggð um 30 ára skeið og sjást minjar hennar enn. Sunnan við Skála er Skálabjarg, rúmlega 130 m hátt fuglabjarg. Skálamegin við hæstu björgin, um 1,7 km vestan Skála, er sérkennileg á, Bjargá. Rennur hún lárétt um 5 m og síðan lóðrétt í sjó um 50 m. Er þetta eflaust ein stysta á landsins. Í brekkunum ofan við vatnið er grafreitur Skálaþorpsins. Þokkalegur malarvegur er í Skála.