Skeiðarársandur

Skeiðarársandur, um 30 km löng og allt að 20 km breið sandauðn, milli Fljótshverfis og Öræfasveitar. Um sandinn fóru hin ægilegu Skeiðar­ár­hlaup. Þann 30. september 1996 hófst gos undir jökli norðan Grímsvatna. Frá eldstöðvunum rann bræðsluvatnið í Grímsvötn og á næstu vikum hækkaði vatnsborð þeirra jafnt og þétt. Að morgni 5. nóvember braust vatnið undan jökli við Jökulfell niður á Skeiðarársand. Hlaupið náði hámarki nóttina eftir (53.000 m3/sek.) og stóð rúma tvo daga. Megin­hlaup­vatnið fór í Skeiðará og Gígjukvísl en minna í Súlu og Sæluhúsa­vatn. Við hlaupið lækkaði yfirborð Grímsvatna um 178 m. Miklar skemmd­­ir urðu á mannvirkjum. Brúna á Gígjukvísl tók af, austasta ein­ing­in á Skeiðarárbrúnni fór alveg, miklar skemmdir urðu við vestur­end­ann, en meginhluti brúarinnar stóðst þessi átök. Tæpir 13 km af veg­inum skemmdust eða eyðilögðust með öllu og fjölmargir raflínu­staur­ar kubbuðust í sund­ur. Fjöldi jaka brotnaði frá jöklinum og flaut niður á sand­inn, þeir stærstu taldir 1500–2000 tonn að þyngd. Tjónið af þessu hlaupi var metið á um einn milljarð króna. Oft hafa skipbrot orðið við Skeið­ar­­ár­sand. Frægast er strand „gull­skips­ins“ Het Waapen von Amst­er­dam 1666 (?) en þess hefur þráfaldlega verið leitað í seinni tíð án árang­urs. Vegur um sandinn var síðasti áfangi hring­vegar um Ísland og var hann opnaður 14. júlí 1974.