Skeiðarársandur, um 30 km löng og allt að 20 km breið sandauðn, milli Fljótshverfis og Öræfasveitar. Um sandinn fóru hin ægilegu Skeiðarárhlaup. Þann 30. september 1996 hófst gos undir jökli norðan Grímsvatna. Frá eldstöðvunum rann bræðsluvatnið í Grímsvötn og á næstu vikum hækkaði vatnsborð þeirra jafnt og þétt. Að morgni 5. nóvember braust vatnið undan jökli við Jökulfell niður á Skeiðarársand. Hlaupið náði hámarki nóttina eftir (53.000 m3/sek.) og stóð rúma tvo daga. Meginhlaupvatnið fór í Skeiðará og Gígjukvísl en minna í Súlu og Sæluhúsavatn. Við hlaupið lækkaði yfirborð Grímsvatna um 178 m. Miklar skemmdir urðu á mannvirkjum. Brúna á Gígjukvísl tók af, austasta einingin á Skeiðarárbrúnni fór alveg, miklar skemmdir urðu við vesturendann, en meginhluti brúarinnar stóðst þessi átök. Tæpir 13 km af veginum skemmdust eða eyðilögðust með öllu og fjölmargir raflínustaurar kubbuðust í sundur. Fjöldi jaka brotnaði frá jöklinum og flaut niður á sandinn, þeir stærstu taldir 1500–2000 tonn að þyngd. Tjónið af þessu hlaupi var metið á um einn milljarð króna. Oft hafa skipbrot orðið við Skeiðarársand. Frægast er strand „gullskipsins“ Het Waapen von Amsterdam 1666 (?) en þess hefur þráfaldlega verið leitað í seinni tíð án árangurs. Vegur um sandinn var síðasti áfangi hringvegar um Ísland og var hann opnaður 14. júlí 1974.