Kelduhverfi, héraðið upp frá botni Öxarfjarðar milli Tjörnesfjalla og Jökulsár. Sprungur og gjár eru víða hið efra, hættulegar yfirferðar. Nær samtímis eldsumbrotunum við Leirhnjúk 1975 hófust jarðskjálftar í Kelduhverfi, mjög tíðir og sumir allharðir fyrstu mánuði ársins 1976. Önnur (hörð) jarðskjálftahrina var í ársbyrjun 1978. Er talið að landið sé að gliðna enda hafa margar sprungur og gjár opnast en aðrar eldri víkkað og dýpkað, verður þessa vart allt norður í sjó. Um leið hefur land sigið um einn metra eða meira. Mest hefur jarðraskið orðið á svæðinu frá Lindarbrekku og austur um Hlíðargerði, einkum hjá bæjunum Lyngási, Framnesi og Hlíðargerði. Allvíða hefur komið upp volgt vatn í sprungum. Niðri á flatlendinu Vestur–Sandi varð til nýtt stöðuvatn, Skjálftavatn. Af þessum sökum hafa árfarvegir breyst verulega.