Mýrar, sveitin frá Hornafjarðarfljótum að farvegi Heinabergsvatna sem nú renna í Kolgrímu, láglend, mýrlend með lágum klappaholtum og víðáttumiklum jökulaurum. Jökulár flæmast um láglendið í síbreytilegum farvegum. Djúpá austast og Hólmsá um miðja sveit. Fláajökull og Heinabergsjökull ganga niður á Mýrar. Akfært er með Hólmsá, að austan, að Fláajökli. Framan við byggðina eru leirur og lón en allbreiður grandi með sjónum. Heinabergsjökull klofnar í tvo arma um Hafrafell og kallast nú syðri hlutinn Skálafellsjökull. Norðvestur af Hafrafelli er einkennilegt, einstætt fjall upp úr jöklinum með djúpri jökulskál sunnan í og heitir Snjófjall. Undan austanverðum jöklinum falla Heinabergsvötn. Í þau koma iðulega hlaup sem stafa af því að svonefndur Vatnsdalur, nyrst í Heinabergsfjöllum, stíflast af jökli og fyllist af vatni þar til vatnsþunginn brýtur sér leið undir jökulinn. Heinabergsvötn voru brúuð 1947 en árið eftir fluttust þau yfir í Kolgrímu og stendur brúin á þurru síðan. Þar sem Hólmsá kemur undan Fláajökli er 150 m hátt klettafell, Jökulfell, sem var hulið jökli um aldamótin 1900 en fór að koma í ljós um 1920 og sést ekki á herforingjaráðskortinu. Í gömlum landamerkjabókum er hins vegar miðað við þetta fell.