Sprengisandur

Sprengisandur, víðáttumikil auðn á miðhálendi Íslands, rétt austan og sunnan við miðju landsins. Mörk sandsins eru ekki fastákveðin en líklega eru þau að sunnan við Þjórsárver (Háumýrar) og við Kiðagil að norðan. Vesturmörk eru óljós nema syðst við Hofsjökul, en austurmörkin eru við Tungnafellsjökul og síðan Jökulfallið, eina af upptakakvíslum Skjálfandafljóts, eða fljótið sjálft. Mestur hluti sandsins er í 700–800 m hæð. Lengd um 70 km og mest breidd 30 km. Sandurinn er greiðfær en var aldrei mjög fjölfarinn fyrr en bílslóð var rudd um hann. Tálmaði það mest umferðinni hversu langt er milli hagabletta. Eldra nafn sandsins var Gásasandur.