Stakkahlíð, fyrrum stórbýli, mest jarða í Loðmundarfirði, fór í eyði 1967. Utan við Stakkahlíð er Stakkahlíðarhraun, öðru nafni Loðmundarskriður, líparítframhlaup sem m.a. er úr Flatafjalli, víða stórgert. Í því og við það er perlusteinn sem eitt sinn var ráðgert að nema til útflutnings. Myndun Stakkahlíðarhrauns hefur valdið jarðfræðingum miklum heilabrotum og margt er óljóst um það enn. Skammt innan við hraunið heitir Orrustukambur. Þar hafa fundist steinrunnin tré. Eitt slíkt er varðveitt hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Reykjavík. Þetta eru stærstu steinrunnu tré sem færð hafa verið til byggða hér á landi. Jeppafært er upp á Fitjar ofan við Stakkahlíð. Víðsýnt er frá Stakkahlíð og hús eru þar í góðu lagi. Þar var starfrækt ferðaþjónusta á sumrin til ársins 2005.