Stapafell

Stapafell, mænislaga móbergsfell, 526 m, gengur suður úr undirhlíðum Snæfellsjökuls, bert og skriðurunnið. Efst á því er klettur, Fellskross, fornt helgitákn en fellið talið bústaður dulvætta. Norðan við Stapafell er Sönghellir, kunnur fyrir bergmál sitt. Sagt er að Bárður Snæfellsás hafi upphaflega fundið hellinn. Í honum eru margar nafnaristur, sumar ævagamlar, m.a. Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, rúnir og galdrastafir.