Þingvellir

Þingvellir, merkasti sögustaður landsins. Þar var alþingi háð í nær níu aldir og þar gerðust margir örlagaríkustu atburðir þjóðarsögunnar. Þingstaðurinn var við norðurenda Þingvallavatns. Búðartóttir eru þar og í Almannagjá.

Lögberg, merkasti staður þingsins, talinn hafa verið á austurbarmi Almannagjár. Nú eru komnar fram kenningar um að Lögberg hafi verið í halli undir vesturbarmi gjárinnar. Þessar kenningar virðast ekki svo ósennilegar.

Falleg kirkja, reist árið 1859 er á Þingvöllum. Þar er þjóðargrafreitur og hvíla þar Einar Benediktsson og Jónas Hallgrímsson.

Árið 1928 voru Þingvellir ásamt nokkrum hluta Þingvalla sveitar gerðir að þjóðgarði. Skipulögð dagskrá er í Þjóðgarðinum og Hakið, fræðslumiðstöð er með margmiðlunarsýningu.

Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, 2. júlí 2004. Á Þingvöllum er víðáttumikið birkikjarr og nokkrir gróðursettir skógarlundir. Frægastur þeirra er Furulundurinn í Almannagjárhalli. Þar var fyrst gróðursett 1899 og er Furulundurinn því fyrsti gróðursetti skógur á Íslandi. Aðrir lundir á Þingvöllum voru gróðursettir af ýmsum hópum eða tilefnum, t.d. Norðmannareitir og Vesturíslendingareitir sem eru gjafir til íslensku þjóðarinnar.