Þistilfjörður, flóinn milli Sléttu og Langaness og byggðin upp af botni flóans. Skiptast þar á lágir ásar og dældir sem ár falla eftir, helstar Svalbarðsá, Sandá, Hölkná, Laxá og Hafralónsá austast og miklu mest. Koma þær allar innan af heiðum, veiði, silungur og lax, í flestum ám. Byggðin nær eingöngu við sjóinn. Geysivíð heiðalönd að baki, var þar fyrrum talsverð byggð. Í Þistilfirðinum eru æskuslóðir listamannanna og frændanna Einars Kristjánssonar rithöfundar og útvarpsmanns (1911–1996) og Ágústar Pálssonar arkitekts (1893–1967), en þeir eru báðir ættaðir frá Hermundarfelli. Ágúst teiknaði m.a. Neskirkju við Hagatorg í Reykjavík og ,,hús skáldsins“ Halldórs Kiljan Laxness Gljúfrastein í Mosfellssveit. Ágúst var helsti frumkvöðull í Funkisstíl og er talinn hafa markað tímamót í sögu íslenskrar kirkjubyggingarlistar með Neskirkju 1942.