Tindastóll

Tindastóll, eitt svipmesta fjall Skagafjarðar, milli Reykjastrandar og Laxár­dals, um 20 km langt, hæð 989 m. Brattur að austan með klettum og fjölda tinda og skarða en vesturhlíðin meira aðlíðandi og gróin. Marg­ar þjóðsagnir eru við Tindastól bundnar. Ein er um óskasteininn sem finn­ast átti í brunni upp af Glerhallavík og fljóta upp á hverri Jóns­messu­nótt. Matthías Jochumsson valdi sér Tindastól að sjónarhóli til að skyggnast um héraðið í kvæði sínu um Skagafjörð. Einn af básunum utan við Glerhallavík er Baulubás og í honum Bauluhellir niðri við sjávarmál. Átti hann að ná þvert í gegnum fjallið til Atlastaða. Kýr frá Atlastöðum fór í gegnum hellinn og fékk hann nafn af því. Eftir þetta lokaði Hálfdan á Felli hellinum, hafði þar áður verið vettvangur sjóskrímsla. Heimkynni trölla og jötna var í Stólnum. Tröllakóngur bjó í Tindastóli og dóttir hans í glersölum í Glerhallavík. Sonur hennar átti að vera Hálfdan prestur á Felli í Sléttuhlíð og þess vegna kunni hann öðrum fremur tökin á tröll­unum í Hvanndalabjargi við Eyjafjörð. Risi mikill átti bú í Tindastóli. Nam hann á brott dóttur Hólabiskups og hafði í helli sínum. Sótti hann til fanga að Drangey og reri þangað steinnökkva miklum. Að sjálfsögðu varð svo mennskur fullhugi til að fella risann og frelsa meyna.