Tjörnes, skaginn milli Skjálfandaflóa og Öxarfjarðar. Vestan og norðan á nesinu eru háir sandsteinsbakkar með sjó. Eru lög þessi 400–500 m þykk, einhver merkustu jarðlög á Íslandi frá tertíertíma og ísöld. Sunnan til skiptast á skelja– og surtarbrandslög sem sýna miklar breytingar á sjávarstöðu. Í syðri og elstu lögunum eru skeljar sem nú lifa aðeins í hlýjum sjó við strendur Vestur–Evrópu. En í yngri lögum kaldsævisskeljar og í Breiðuvík íshafsskeljar. Surtarbrandur var numinn á Tjörnesi í landi Hringvers og Ytri–Tungu á fyrri stríðsárunum. Skeifárfoss er einn fallegasti foss norðausturlands. Hann fellur niður í Skeifárgilið á sjávarbökkunum milli Hringvers og Tunguvalla. Fólk nýtur mikillar náttúrufegurðar í gönguferð að honum.