Trékyllisvík

Trékyllisvík, breið vík ásamt allmiklu undirlendi sam­nefndu. Er hún eitt búsældarlegasta byggðarlag á Norður–Ströndum. Á víkinni allstór eyja, Árnesey, en hét Trékyllisey til forna, ágætt varpland. Undir eyna safn­aði Þórð­ur kakali skipa­liði sínu áður en hann lagði í för þá er leiddi til Flóa­bardaga á Jóns­messu 1244. Miklir rekar eru í Trékyllisvík. Útgerð þaðan á tímum hákarla­veið­anna. Í húsinu Kört í Trékyllisvík hefur verið byggt upp minjasafn í einkaeigu og eru handverksgripir eftir fólkið í sveitinni einnig boðnir þar til sölu. Þar er einnig upplýsingaþjónusta um Árneshrepp. Húsið sjálft er sérstakt og gaman að líta þar við, en það er að mestu leyti byggt úr rekaviði.