Stafafell, er fyrrum höfuðból og kirkjustaður var prestssetur fram til 1920. Í kirkjunni er forn predikunarstóll og altaristafla. Síðastur prestur var þar Jón Jónsson (1849–1920), sem var mikill fræðimaður. Fjallasýn er mikil og fjölbreytt. Stafafellsfjöll eru einstæð að formum og fjölbreytni, þaðan er greiðfærust gönguleið að Víðidal í Lóni. Frá Stafafelli er gengið inn Stafafellsfjöll um Hvannagil, Austurskóga og farið yfir Jökulsá á göngubrú við einstigi við Eskifell. Við Eskifell er skáli þar sem hægt er að gista. Frá Eskifelli er síðan gengið inn efri kambaleið að Illakambi. Vestan Jökulsár liggur jeppavegur inn Dalsheiði, yfir Skyndidalsá, um Kjarrdalsheiði og endar á Illakambi. Þessi vegur er einungis fær öflugum jeppum og Skyndidalsá getur verið varasöm yfirferðar. Frá Illakambi er 40 mínútna gangur að Múlaskála í Nesi, í eigu Ferðafélags Austur–Skaftfellinga. Frá Nesi er ein dagleið í Víðidal. Margar fallegar gönguleiðir eru á þessu svæði, má þar nefna leiðina um Víðibrekkusker, Tröllakróka og Gjögur.