Vallanes, kirkjustaður. Kunnastur allra presta sem setið hafa Vallanes er Stefán Ólafsson skáld (um 1619–88). Næst Hallgrími Péturssyni var hann mesta skáld á Íslandi á 17. öld. Kvæði hans komu fyrst út 1823 en hafa verið gefin út síðan. Hann fékkst mikið við þýðingar á íslensku og af íslensku á latínu. Stefán var einnig sönglagasmiður og stjarnfræðingur. Gegnt kirkjunni (byggð 1930) er Stefánsstofa, skrúðhús frá 1997. Þar er líkan af Vallanesbænum og kirkjunni eins og þau voru um aldamótin 1900. Kirkjan og skrúðhúsið eru opin ferðafólki. Í landi Vallaness er félagsheimilið Iðavellir. Í Vallanesi er stunduð lífræn ræktun og framleiðsla m.a. á snyrtivörum undir vörumerkinu Móðir Jörð. Eymundur Magnússon bóndi hóf lífræna ræktun árið 1987 og hefur kennt Íslendingum að borða bygg. Bankabygg, byggmjöl, grænmetisbuff úr íslensku byggi og fleiri lífrænar afurðir eru m.a. framleiddar í Vallanesi.