Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar, eru ýmist taldar 15 eða 18, sæbrattar hamraeyjar með grónum hlíðum og rindum /grasgeirum og auk þeirra nærri 30 sker og drangar. Allar hafa eyjarnar orðið til í neðansjávareldgosum, þær elstu fyrir u.þ.b. 10.000 árum, hluti þeirra fyrir 5.000 árum og þá rann m.a. Ofanleitishraun úr Helgafelli.

Yngsta eyjan, Surtsey, reis úr hafi 1963, en Surtseyjargosið stóð í tæp 5 ár. Árið 1973 gaus í Heimaey, einu eyjunni sem er byggð, og komu þar upp 240 millj. rúmmetrar af hrauni sem að hluta fór yfir byggð Heimaeyjar, eða tæp 400 af 1.200 húsum sem þar voru. Fyrir 1973 bjuggu 5.300 manns í Eyjum en 2013 voru þar 4.135 íbúar.

Fuglalíf Vestmannaeyja er mjög fjölskrúðugt og hvergi við Ísland verpa eins margar tegundir sjávarfugla.

Vestmannaeyjar hafa lengstum verið stærsta verstöð Íslands. Í Vestmannaeyjum er mjög glæsilegt fiskasafn með flestum íslensku nytjafiskunum, steina- og fuglasafn og Náttúrufræðistofa Suðurlands. Byggðasafn er þar, listasafn og gott bókasafn. Golfvöllur, sundlaug, gönguferðir og skoðunarferðir á sjó, landi og úr lofti. Sérstæð er Sprangan í Skiphellum, þar sem börn og unglingar læra bjargsig. Á Skanssvæðinu er eftirlíking af stafkirkju frá 10. öld, þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga á 1000 ára afmæli kristnitöku árið 2000 í minningu þess að Ólafur Tryggvason gaf kirkju til Íslands þegar Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti komu til landsins árið 1000 til að kristna Íslendinga. Skyldi kirkjan reist þar sem þeir kæmu fyrst að landi á leið sinni til Þingvalla. Á Skansinum hefur einnig verið endurbyggt annað elsta húsið í Eyjum; Landlyst. Var það upphaflega byggt sem fæðingarheimili árið 1847 þegar ginklofi var landlægur sjúkdómur í Eyjum og 60-80% nýbura dóu úr honum.