Víðimýri, kirkjustaður, fornt höfðingjasetur og eitt af helstu höfuðbólum Skagafjarðar áður fyrr. Þar sátu fyrirmenn Ásbirninga, m.a. frændurnir Kolbeinn Tumason og Kolbeinn ungi Arnórsson. Víðimýrarkirkja er ein af örfáum varðveittum torfkirkjum landsins, reist árið 1834 af Jóni Samsonarsyni smið og alþingismanni. Í upphafi 20. aldar var tvísýnt um afdrif kirkjunnar, en síðar áttuðu menn sig á því að hér var um ómetanleg menningarverðmæti að ræða. Hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1936. Kirkjan er opin gestum yfir sumartímann.