Vigur

Vigur, eyja vestur af Ögurnesi, 0,59 km2. Fögur eyja, gagn­auð­ug að æðarvarpi, lundatekju og útræði fyrrum. Síra Sigurður Stefánsson (1854–1924), þingskörungur mikill, gerði garðinn frægan í seinni tíð. Í Vigur eru geymdar minjar gam­alla búskaparhátta, m.a. vindmylla og áttæringurinn Vigur­breið­ur. Hans er fyrst getið 1829 í sambandi við flutn­inga á rekaviði á Ströndum. Báturinn er enn í notkun. Myllan er eina varðveitta vindknúna kornmylla landsins úr timbri. Talið er að Daníel Hjaltason gullsmiður hafi reist mylluna um 1860 en hún hefur síðar verið stækkuð og endurbætt. Í vörslu Þjóð­minja­safns Íslands frá 1992. Einnig er þar Viktoríuhús, timbur­hús undir klassískum áhrifum, reist af Sumarliða Sumar­liða­syni gullsmið um 1860. Það var upphaflega byggt við timbur­stofu frá því um 1800. Hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1992. Vin­sæll ferðamannastaður. Félagsbúið í Vigur fékk um­hverfis­­verð­laun Ferðamálaráðs 1995, en þá voru þessi verð­laun veitt í fyrsta sinn. Vigur er oft nefnd Perlan í Djúpinu.