Vogastapi eða Stapi, 74 m hár hamraveggur sjávarmegin. Hringsjá á Grímshóli.
Á Stapa hefur löngum þótt reimt enda hafa margir villst þar fyrr á árum í hríðarveðri og náttmyrkri og ýmist hrapað af Stapanum eða orðið úti.
Á seinni áratugum hafa sumir vegfarendur þóst sjá þar mann á ferli með höfuð undir hönd og þannig á sig kominn átti hann það til að setjast inn í bíla, einkum ef menn voru einir á ferð.
Á Stapanum og við veginn að flugvellinum hefur Áki Gräns sett upp fjölda listaverka og steintrölla sem gerð eru úr náttúrulegu grjóti og setja mikinn svip á umhverfið og minna á tröll sem ekki náðu heim fyrir sólarupprás og urðu því að steinum.