Ás, þaðan var Gísli Bjarnason stúdent (1678–1707). Hann lést í hafi úr bólusótt og barst veikin til landsins í farangri hans. Var hún svo skæð að næst gekk svartadauða í byrjun 15. aldar. Urðu þá margir karlleggir fornra höfðingjaætta aldauða. Er talið að um 26% landsmanna hafi dáið af völdum bólusóttarinnar en í manntalinu 1703, fjórum árum áður voru Íslendingar 50.358. Ás ásamt nágrannabæjum kallast einu nafni Áshverfi.