Blönduós

Blönduós, kaupstaður á bökkum Blöndu er fellur um það mitt, stærsti þéttbýlisstaðurinn við Húnaflóa.Löggilt höfn síðan 1875 en verslun hófst ári síðar.

Á Blönduósi eru ýmis setur og söfn svo sem Heimilisiðnaðarsafnið, Þekkingarsetur, Laxasetur og Textílsetur Íslands. Elsta hús bæjarins, Hillebrandtshús, sem upphaflega var reist 1877 úr viðum eldri húss eða húsa, hefur verið endurreist, en þar er Hafíssetrið staðsett. Í húsnæði veitingastaðarins Potturinn og pannan er Eyvindarstofa til húsa, þar er sögu Fjalla Eyvinds og Höllu gerð góð skil í skemmtilegu umhverfi.

Árið 1897 var Blanda fyrst brúuð við Blönduós. Núverandi brú var reist á árunum 1962 – 66, fyrsta strengjasteypubrú á Íslandi. Í Hrútey skammt fyrir ofan kauptúnið er nú fólkvangur Blönduósbúa, þar eru skemmtilegar gönguleiðir.