Borgarnes

Borgarnes, varð löggiltur verslunarstaður árið 1867 og byggð fór að myndast þar undir aldamótin 1900.Í Borgarnesi er ferðaþjónusta mikilvæg atvinnugrein. Þar er Landnámssetur Íslands þar sem boðið er m.a. upp á tvenns konar sýningar um; landnámið og Egilssögu fyrir ferðamenn og leikhús sem skipar verðugan sess meðal þeirra bestu á landinu. Nálægt Englendingavík er Bjössaróló, sem er skilgreindur sem menningarminjar. Þetta er leikvöllur fyrir börn, sem smíðaður var á sínum tíma af hugsjónamanninum Birni Guðmundssyni. Í nágrenninu er svo Safnahús Borgarfjarðar þar sem sjá má sýninguna Börn í 100 ár, sem er sögusýning um Ísland á 20. öld, sögð í ljósmyndum út frá lífi barna á þessum tíma.

Við Skallagrímsgarð er Íþróttamiðstöð Borgarbyggðar, þar sem er góð sundlaug með heitum pottum og rennibrautum.

Skallagrímsgarður í Borgarnesi er sögufrægur staður. Þar er haugur Skallagríms Kveldúlfssonar, sem fyrstur nam land í Borgarfirði og falleg lágmynd af Agli Skallagrímssyni eftir Anne Marie Carl-Nielsen.