Brúarfoss, bær á syðri bakka Hítarár, við þjóðveginn.
Samnefndur foss í ánni hjá bænum. Brú er þar yfir Hítará og veiðimannahús og sumarbústaður.
Jóhannes Jósefsson (1883–1967) glímukappi og veitingamaður, Jóhannes á Borg, hafði þar sumarsetur um margra ára skeið.
Sögn er til um að áður fyrr hafi steinbogi verið á Hítará hjá Brúarfossi. Eitt sinn hafi dauðadæmdur sakamaður flúið af aftökustað og yfir bogann en um leið og hann var sloppinn yfir steyptist boginn í ána. Átti sá atburður að sanna sakleysi hans.
Fagrir og sérkennilegir skessukatlar eru við Brúarfoss.
Skammt ofan við Brúarfoss eru Grettisstillur, stórir og smáir steinar er liggja næstum því í röð yfir ána, verk þeirra Grettis og Bjarnar Hídælakappa að sögn Grettissögu.