Dimmuborgir

Dimmuborgir, stórbrotið hraunsvæði með ótal kynjamyndum, stöplum, gatklettum, hvelfingum, hellum og skútum. Virðist sem þarna hafi verið hrauntjörn sem bráðið hraunið hefur runnið fram úr en þökin fallið niður. Má víða sjá eins konar „flóðmörk“ í hraunveggjunum. Einna sérkennilegastur staður er Kirkjan, há hvelfing og opin í báða enda. Allmikill gróður er í Dimmuborgum, birkikjarr, sem fer vaxandi síðan þær voru friðaðar. Vandratað er um þær ef farið er út af stígum. Dimmuborgir eru í eigu Landgræðslu ríkisins.