Kirkjubæjarklaustur, býli og þorp. Þar er heilsugæslustöð, dýralæknir, félagsheimilið Kirkjuhvoll, grunnskóli fyrir Skaftárhrepp, veðurathugunarstöð, íþróttahús og sundlaug. Íbúar voru 112 1. jan. 2012. Klaustur á sér langa sögu. Sagt er, að kristnir Írar hafi búið í Kirkjubæ fyrir landnám, síðan landnámsmaðurinn Ketill fíflski og eigi máttu heiðnir menn búa þar. Þar var nunnuklaustur frá 1186 til siðaskipta. Örnefni er minna á klaustrið: Systrastapi, Systrafoss og Systravatn uppi á fjallinu og Sönghóll sunnan Skaftár. Þegar munkarnir frá Þykkvabæjarklaustri heimsóttu nunnurnar á Kirkjubæjarklaustri hófu þeir upp söng sinn á hólnum, þar sem klausturstaðinn bar fyrst fyrir augu þeirra. Eldmessutangi vestan við Systrastapa, þar sem Eldhraunið stöðvaðist í farvegi Skaftár, meðan síra Jón Steingrímsson (1728–91) flutti messu. Listaverkið Byrði sögunnar eftir Magnús Tómasson (f.1943) var afhjúpað 1997. Kirkjustaður til 1859 en 1974 var vígð kapella til minningar um síra Jón. 1997 var opnuð svonefnd Kirkjubæjarstofa, en henni er ætlað að vinna að náttúru– og umhverfismálum. Á Klaustri er alllöng hefð fyrir skógrækt og eru skógarlundir sitt hvoru megin við Systrafoss hávaxnir og myndarlegir. Þar hefur mælst hæsta sitkagrenitré landsins, um 22 m árið 2005. Kammertónlistahátíð er haldin árlega eina helgi í ágústmánuði á Klaustri.