Heilagsdalur, grunn dalhvilft austan undir Bláfjalli. Hagi er þar nokkur, valllendi og víðigrundir með lækjum og lindum. Austan að dalnum liggur helluhraun. Talið er líklegt að áningarstaður þeirra er fyrrum fóru um Ódáðahraun hafi verið í Heilagsdal og jafnvel að þar sjáist fyrir fornum tjaldhringum. Víst er að ævagömul vörðubrot og merki um fornar slóðir og vegagerð sjást austur af Heilagsdal. Þar er nú nýr gönguskáli Ferðafélags Húsavíkur.