Keldudalur

Keldudalur, dalverpi, áður með fjórum bæjum. Kirkjustaður að Hrauni. Hraunskirkja var reist árið 1885. Aðalsteinn Pálsson bóndi í Hrauni sá um smíðina og gaf söfnuðinum húsið. Kirkjan stendur rétt utan við gamla kirkjugarðinn en innan hans hafa eldri kirkjur í Hrauni staðið. Sérkenni kirkjunnar er þakspónninn en þannig var hún smíðuð í upphafi. Fljótlega var hún þó klædd með bárujárni. Hún var aflögð sem sóknarkirkja árið 1971 en dalurinn fór í eyði árið 1987. Um tíma stóð til að rífa hana en fyrir til­stuðlan Þjóðminjasafns Íslands var horfið frá því og gagngerar viðgerðir fóru fram á vegum safnsins árin 1998–1999. Hún var tekin aftur í notkun árið 2000 og er nú hluti af húsasafni Þjóðminjasafnsins. Skammt frá kirkjunni er Gvendarbrunnur, sem er uppsprettulind, og þótti sjálfsagt að taka þaðan vatn þegar skírt var í kirkjunni.