Klausturhólar

Klausturhólar, bær í Grímsnesi, fyrrum prestssetur og kirkjustaður. Klausturhólar eru taldir hafa verið í eign Viðeyjarklausturs og á ábótinn í Viðey, Alexíus Pálsson, að hafa búið þar eftir að klaustrið var rænt 1539 og bærinn þá hlotið nafn en hét áður Hólar. Holdsveikraspítali var í Klausturhólum frá 1651 fram um miðja 18. öld er hann var fluttur að Kaldaðarnesi. Í Klausturhólatúni er Grímsleiði þar sem sagt er að Grímur landnámsmaður sé heygður. Ennfremur er þar Goðhóll sem bendir til hofs á staðnum.