Krýsuvík, fornt höfuðból og kirkjustaður, nú í eyði. Geysimikill jarðhiti. Bæinn tók af, þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið gróðurlendi jarðarinnar, líklega á fyrri hluta 11. aldar. Kirkja mun hafa verið í Krýsuvík á 13. öld. Stórbýli var áfram í Krýsuvík um aldir og undir því voru margar hjáleigur. Brennisteinsnáma var í Krýsuvík um skeið og var brennisteinn fluttur fyrst til Hafnarfjarðar en síðan úr landi.
Í Krýsuvík var kirkja sem notuð var sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64. Kirkjan eyðilagðist í eldsvoða í ársbyrjun 2010.