Skaftafell

Skaftafell, vestasti bær í Öræfum, forn þingstaður Skaftfellinga. Þrenn bæjarhús standa hátt enda flutt upp á brekkurnar vegna ágangs Skeiðarár. Mjög víðsýnt er frá Skaftafelli og hringsjá er á Sjónarskeri. Náttúrufar fegurra og margbreytilegra en víðast annars staðar, fjölbreytilegur gróður, skógar, fossar, gljúfur, fjöll, jöklar og dalir.

Þjóðgarðurinn í Skaftafelli var stofnaður 1967 og varð hann hluti af Vatnajökulsþjóðgarði 2008.

Á sandinum við brekkufótinn er þjónustumiðstöð og sérstök Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem ferðafólki gefst kostur á að kynna sér á mjög aðgengilegan hátt sögu og sérkenni staðarins. Skaftafellsjökull er skammt frá þjónustumiðstöðinni og þangað er malbikaður göngustígur.

Svartifoss er þekktasti fossinn í þjóðgarðinum en hann er girtur stuðlabergi, einstök náttúrusmíð.