Búlandshöfði, gengur snarbrattur í sjó fram með hamrabeltum efst og neðst en skriðum miðhlíðis. Mikill farartálmi fyrrum vegna bratta, illræmdust var Þrælaskriða. Í Búlandshöfða fann dr. Helgi Pjeturss (1872–1949) merkileg lög sæskelja og jökulminja frá jökultíma í 135–180 m hæð yfir sjó. Var sá fundur lykill að þekkingu manna á breytingum loftslags á ísöld hér á landi. Samsvarandi lög hafa síðar fundist í fleiri fjöllum þar vestra, Stöð, Kirkjufelli, Mýrarhyrnu o.fl.